Loading...
Um Okkur2019-08-29T10:31:33+00:00

Saga Litla Kletts

Hvernig þetta allt byrjaði

Það var árið 1994 sem Jón Ingiberg Guðmundsson byrjaði að vinna við steinslípun. Til að byrja með var þetta ekki full vinna og var hann oft í öðrum verkum meðfram því að slípa. Fyrstu árin var nánast eingöngu slípað loft, en síðan færðist það út í loft og kverkar og svo á endanum veggi líka. Það kom síðan að því að það var byrjað að slípa hús að utan.

Þegar verkefnum fór að fjölga var tekin ákvörðun um að fjölga starfsmönnum. Árið 1998 var komið að því að ráða fyrsta starfsmanninn. Það var síðan ári eftir það sem Litli klettur (hér eftir skammstafað LK) ákvað að ráða útlendinga í vinnu, sem féll í misgóðan jarðveg á þessum tíma. En það hefur síðan reynst mjög góð ákvörðun, þar sem erlendir starfsmenn hafa í gegnum tíðina reynst fyrirtækinu vel.

Stækkað við sig

Steinslípun er ekki talin hreinlegasta vinnan í dag og á sínum tíma voru ekki notaðar ryksugur. LK var oft að slípa hús á kvöldin og um helgar til að stoppa ekki vinnu hjá öðrum fyrirtækjum á staðnum. Þegar leið á var ljóst að þetta gengi ekki til lengdar og fóru menn á stúfana eftir ryksugum sem hægt væri að tengja við slípirokkana. Það varð úr að að lokum fundust nokkrar gamlar ryksugur hjá Sölu varnarliðseigna sem LK gat notað mótorana úr og tengt þá við rör sem leiddu rykið út um næsta glugga. Það voru ófáar ferðirnar hjá slökkviliði og lögreglu sem fylgdu í kjölfarið þar sem þetta var nýlunda á sínum tíma og vaknaði yfirleitt grunur um eld. En í dag er tæknin orðin betri og öflugar ryksugur eru orðnar staðalbúnaður hjá öllum starfsmönnum LK. Og heimsóknir slökkviliðs eru engar.

Stofnun Litla Kletts

Árið 1999 var ákveðið  að stofna fyrirtæki sem var skírt Litli klettur. Nafnið kemur frá Flateyri, eða nafla alheimsins eins og oft er haft að orði. Frá stofnun LK hefur fyrirtækið vaxið og dafnað með hverju árinu og fleiri verkþættir bæst við steinslípunina t.d. steinsögun, kjarnaborun og gólfslípun. Árið 2007 fjölgaði um helming í stjórnunarstöðum fyrirtækisins. Það gaf færi á að bæta við fleiri verkþáttum, sem hafa fengið mjög góðar móttökur hjá viðskiptavinum LK.

Í dag er erum við að slípa loft, veggi og gólf og slípum burt málningu og myglusvepp. Einnig er LK með steinsögun, fræsingu fyrir hita- og rafmagnsrörum og kjarnaborun.

Síðustu ár hefur LK tekið að sér rifverkefni á léttum veggjum, loftum, gólfum úr timbri, gifs, vikri og asbesti.
Til að geta verið í fremstu röð í okkar fagi þá höfum við fjárfest mikið í nýjum og góðum tækjum.

Nýjir tímar

Í desember árið 2014 seldi Jón fyrirtækið og keyptu þrír starfsmenn það.  Nú er það í eigu Marcin Antolek, Maríusar H. Gunnsteinssonar og Guðbjarts Jónssonar. Skipta þeir verkum á milli sín.

Það er álit LK að þrátt fyrir erfiðar aðstæður í þjóðfélaginu þá sé alltaf þörf á mönnum sem veita góða þjónustu, því leggja starfsmenn Litla kletts hart að sér í dag og veita öllum sem til þeirra leita eins góða þjónustu og völ er á.